Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Gleði og gaman!

Þá er kominn tími til að hafa sig upp út letinni og fara að gera eitthvað annað en að vera í fríi. Sniðugt að byrja á því að blogga svolítið um síðustu daga og skella sér svo í vinnunaWink. Verslunarmannahelgin leið stóráfallalaust á landinu og algjörlega áfallalaust hér á þessu heimili. Við vorum bara heima og höfðum það notalegt. Mamma kom til okkar á fimmtudag og ég keyrði hana heim í gærkveldi. Læti helgarinnar fór sem sagt fram hjá okkur, við nutum bara veðurblíðunnar, borðuðum góðan mat, pottuðumst og fórum á rúntinn um nágrennið. Svona á lífið að vera.

Alvara lífsins tók svo við hjá Val í gær. Sumarfríinu lokið og púlið hafið. Ég nennti ekki að vinna í gær (hefði þurft þess), þess í stað vaknaði ég bara með manninum og eftir að hafa lesið blöðin fór ég að þvo og bóna bílinn minn. Mamma svaf á meðan eins og engill enda var þetta fyrir átta. Mamma var svo vöknuð þegar ég kom inn eftir bílasjæninguna og horfðum við saman á bóld end bjútifúl. Það gerum við oftast þegar hún dvelur hjá okkur. Ég játa það reyndar fúslega að gamlan mín þurfti ekkert að upplýsa mig um það sem gerst hefur í þáttunum í sumar (nema síðustu þrjár vikurnar) þar sem ég horfði þættina alla virka morgna í hálfan mánuð (þá fór Valur í vinnuna og húsmóðirn var heima, hafði ekkert að gera, nennti ekki að þurrka ryk og skúra, sólin ekki farin að skína á pallinn og orðin leið á Heimsljósinu, svo þetta varð fyrir valinuW00t). Ógeðslega leiðinlegir þættir verð ég að segja. Alltaf sama hringavitleysan í gangi, allir að sofa hjá öllum, mæðgur og systur, bræður og feðgar. Ég held að Brúk sé búin að giftast þremur bræðurum og föður þeirra, einum bræðranna þrisvar og stefnir nú í fjórða skiptið, svo ég upplýsi lesendur orðurlítiðWoundering. Spurning hvort ég horfi áður en ég lít upp í skólaWhistling. Eftir bóldið lásum við blöðin og spjölluðum og í hádeginu bauð ég í súpu í Kristjáns bakaríi. Eftir það tók smá búðarráp við. Ég keypti mér íþróttaskó á 1990 krónur og tvo boli og mamma náði sér líka í bol. Allt kostaði þetta um 5000 krónur, enda einhverjar útsölur í bænum ennþá.

Við mamma fórum svo til Grenivíkur eftir að hafa snætt steikta ýsu. Litum auðvitað í kaffi til Oddu systur og stoppuðum þar góða stund í flottu yfirlæti. Pétur Þór tók mér fagnandi og raunar öll börnin mín á því heimili. Yndislegir krakkar sem Odda mín á. Tjáður Pétur tók mig á bryggjurúnt, það er að segja ég ók, þar sem hann sagði mér nöfn allra trillanna sem voru við bryggju. Alveg klár á þessu öllu saman pjakkurinn sá. „Þarna eru Anna og Hugrún og Geiri er á milli“. „Geiri? Ég sé engan Geira!“ „Jú, það er rauði báturinn á milli þeirra! Og þarna er Fengur og Eyfin og Gói og Sindri er litli báturinn og Sjöfn er þarna“ glumdi í þeim stutta. „Eyfin, hvernig nafn er það?“ „Hann bara heitir það!“ „Allt í lagi!“ Í ljós kom að Eyfin heitir Eyrin en hvaða máli skiptir það. Ég hélt líka að tunglið héti túll þangað til ég fór að lesa sjálfLoL svo svona misheyrn er alvanaleg í familíunni.

Eftir kaffið hjá Oddu, skilaði ég mömmu á Grenilund þar sem Adda og Oddný tóku fagnandi á móti henni. Gömlurnar eru afar kátar þessa dagana voru svo heppnar að nýr heimilismeðlimur, af hinu kyninu, flutti inn fyrir stuttu og kemur sá af Akureyrinni. Ekkert smá hressar með það kerlurnarWink.

Heim var ég komin upp úr ellefu og skreið beint í bólið eftir erilsaman en skemmtilegan dag. Farið vel með ykkur elskurnar mínar, þar til síðar, yfir og út!


Veðurblíðan!

Við hjónakornin höfum haft það notalegt síðustu daga. Bubbi og Malla litu við í gærmorgun og fengu sér sopa með okkur á pallinum áður en þau fóru í veiði. Eftir hádegi renndum við út í Höfðahverfi þar sem við tókum einn golfhring á Hvammsvelli. Eftir golfið fórum við í kaffi til Oddu og áttum gott spjall. Pétur Þór tók að vanda vel á móti frænku sinni, allaf jafngaman að vera með honum litla skottinu. Heim komum við að ganga fimm. Veðrið var náttúrulega með eindæmum gott, yfir 20 stiga hiti og blíða.

Þegar við vöknuðum í morgun var veðrið ekki verra en í gær. Sól skein í heiði og heljarinnar golfveður. Eftir kaffið fórum við sem sagt inn á Þverá og tókum einn hring. Ég stóð mig þokkalega, náði meðal annars að para tvær, aðrar þurftu fimm og sex högg. Árangur Vals var ekki eins góður, en svona er golfið, ekki alltaf rétti dagurinnWink. Valur var að fara með hjólið sitt í skoðun og held ég að mitt fari á morgun. Við höfum verið heldur léleg í akstrinum í sumar, mest af fríinu farið í smíðar. En það kemur sumar eftir þetta auk þess sem þessu eru ekki lokið enn.LoL

Held ég láti þetta duga í dag, kominn tími til að skella sér út á pallinn með kaffi og bókSmile. Farið vel með ykkur elskurnar mínar!


Sældarlíf!

Við tókum daginn rólega í gær, fórum í golf og sátum svo bara í sólinni eftir hádegi. Ég fór reyndar í kaffi til Ágústar litla en hann fékk bæjarleyfi einhverja klukkutíma og auðvitað fögnuðu vinir og ættingja með honum. Framfarirnar eru með eindæmum, andlitið að verða þekkjanlegt, mar og særindi í litla kroppnum á undanhaldi. Hann virðist mér gömul sál blessaður, tekur öllu með jafnaðargeði og er eins og ég hef sagt áður ótrúlega duglegur. Verst ég gleymdi að hafa með mér myndavélina.

Ekki má nú gleyma því að Addi mágur minn varð fertugur í gær. Til hamingju Addi minn Wizard og mundu að allt er fertugum fært!

Garðveisla!Seinnipartinn komu ættingjar Vals í grillveislu. Við snæddum náttúrulega úti, enda léku veðurguðirnir við okkur. Eftir að gestirnir fóru heim skellti unga fólkið sér í pottinn, ég bættist í hópinn um ellefuleytið. Um miðnætti komu Doddi og Tanya, hann keyrði krakkana upp í Bjarkarstíg að sækja bílinn hans Bubba (bróður) þar sem þeir ætluðu að skella sér á rúntinn. Valur, Doddi og Tanya fóru þá í pottinn en ég sat undir hitaranum og  naut veðurblíðunnar. Hjónakornin héldu heim á leið að Frændsystkinin í pottinum!ganga þrjú og þegar við vorum að hafa okkur í háttinn renndi unga fólkið að húsinu. Valur fór að leggja sig en ég var áfram á róli og fann eitthvað handa þeim að borða. Kannske ekkert mjög hollt að borða um miðja nótt, en hvað með það, stundum þarf að gera undantekningarWink. Ég fór ekki í bólið fyrr en klukkan að ganga fimm í nótt, svaf eins og engill til klukkan að verða ellefu. Svona á lífið að veraTounge. Hér eru myndir.


Maður er manns gaman!

balloons10-bigHeilmikið fjör verið hér í Stafholtinu síðustu daga. Ég gleymdi því í gær að geta þess að Athena Líf dótturdóttir Gudda bróður varð eins árs og hélt auðvitað heljarinnar veislu heima hjá ömmu og afa en þar er hún stödd ásamt móður og bróður. Til hamingju með daginn litla skottan mín, hér eru sko afmælisblöðrur bara fyrir þigWizard!

Við tókum daginn snemma, Valur fór strax í að ljúka við að tengja ljósin hér úti, ég var mest að dunda við að þvo þvott og hengja út. Merkilegt hvað þarf að þvo af þremur hræðumPinch, held þó að flestar séu flíkurnar af syninum, en hann á erfitt með að venja sig af að koma með vikuskammtinn í einu lagi. Ég er kannske rétt búin að tæma, kem niður í þvottahús og þá flæðir upp úr óhreinatausdallinumAngry. Doddi og Tanya litu við og fengu sér kaffi í sólinni á pallinum góða. Eftir hádegi komu svo Grenvíkingarnir mínir. Veðrið var svo gott að við fengum okkur kaffi og með´ðí úti. Odda útréttaði eitthvað og blessaðir ungarnir hennar og amma gamla voru hér á meðan. Þau fóru svo öll upp á sjúkrahús að hitta litlu hetjuna. Ágúst litli er alveg ótrúlega flottur, framfarir eru líka alveg með ólíkindum. Hann fær að fara aðeins heim á morgun, kominn í gips og allt virðist gróa mjög vel. Frábærar fréttir það.

Hóffa mín leit svo til mín seinnipartinn. Við drukkum kaffi og spjölluðum um alla heima og geima. Langt er liðið síðan við höfum hist til að spjalla og þótti mér þetta notaleg stund. Hlakka til að hitta þig aftur Hóffa mínSmile

Eftir heimsókina komu Grenvíkingarnir svo og snæddu með okkur djúpsteiktar rækjur áður en haldið var heim á leið.

Bubbi, Malla og Steinunn Helga komu svo rétt eftir kvöldmat. Hjónin héldu áfram austur á bóginn til móts við eldri dótturina sem er að koma til Akureyrar frá Neskaupstað en Steinunn ætlar að gista hér þessa helgina.

Góður dagur eins og þeir eru ávallt þegar góða gesti ber að garði, maður er nefnilega manns gamanJoyful


Komin heim í leit að ró!

Eftir stuttu athöfninaVið hjónin fórum til Reykjavíkur á mánudag, strax og búið var að pússa okkur saman og komum aftur heim í gær. Valur var ákveðinn í að eyða að minnsta kosti tveimur dögum (heilum), jafnvel þremur í borginni, en við vorum varla komin á staðinn þegar hann fór að tala um að fara aftur heimW00t. Okkur tókst samt ætlunarverkið en það var að finna ljós á pallinn á skikkanlegu verði. Okkur langaði nefnilega í nokkra staura, en verðið á einum ca. 20 cm háum staur er á bilinu 15-70 þúsund krónur sem okkur þótti náttúrulega fáránlegt, fyrir utan að efnahagurinn hefði ekki leyft mörg þannigWink. Við sem sagt keyptum fimm ljósastaura (ekki götu), skoðuðum helstu verslunarmiðstöðvar, hittum vini og ættingja þó ekki hafi verið stoppað lengurLoL. Talandi um verslunarmiðstöðvar þá þoli ég ekki slík fyrirbæri. Þegar ég kem inn í Kringluna og ég tala nú ekki um Smáralindina þá fæ ég innilokunarkennd og missi mátt úr mínum fíngerða skrokkiWoundering. Ó mæ god hvað mér leiðist þessi fyrirbæri og yfirhöfuð verslanir, eins og það er þó gaman að koma heim með eitthvað fallegt úr slíkum túrumPouty. Ég er meiri svona kaffihúsakerling en verslunarkerling.

Dagurinn á að fara í að ákveða hvar ljósin eiga að vera, ég er nú ekki sérlega flink í slíku, hef í raun ekki miklar skoðanir á ljósum eða staðsetningu þeirra, veit ekki af hverju. Er bara svona, mér væri sama þó hér væru bara rússneskar krónur, tek ekki eftir útliti króna og staura, vil bara lýsingunaTounge.

Ég reikna með að líta líka á litla frænda minn, hann Ágúst Má en hann liggur á barnadeildinni. Það var hann þessi litla elska sem lenti fyrir bílnum á Bónusplaninu. Skelfilegt slys en sem betur fer er útlit fyrir að hann nái sér. Við fórum með mótorhjól til hans í gær og litla skottið var eins og fullorðinn maður þegar hann sagði mér að sér liði bara óvenjuvel núna. Hann hélt greinilega ró sinni, þó auðvitað sé hann með sársaukaverki í öllum skrokknum, enda allur bólginn og marinn frá tám og upp á hvirfil. Augun bæði sokkin og andlitið allt bólgið. Ég dáist að litlu hetjunni hvað hann er sterkur. Má þakka fyrir að ekki fór ver, hjól bílsins fóru yfir fót hans og það má greina för á enninu eftir hluta af dekki, það hefði ekki verið að sökum að spyrja ef bíllinn hefði farið yfir höfuð, brjóst eða kviðarhol. Við vonum bara að litli skúrfélaginn, eins og Valur kallar hann, jafni sig fljótt og vel á næstu vikum.


Sól, sól skín á mig!

Rólegheit í kringum okkur síðustu daga. Mest höfum við setið úti á fallega pallinum okkar og sleikt sólina loksins þegar hún áttaði sig á að það er sumar á skerinu og hún á ekkert með að vera í vetrarfríiWink.

Náttúran í allri sinni dýrð!Ágætisveður eins og ég sagði og yndislegt hér suðvestan hússins. Við fengum góða gesti í gær. Fyrst kom Heimir og svo Doddi og Tanya. Bubbi fór með vinnufélögum í Vaglaskóg til að grilla og djamma, en við Valur grilluðum okkur hér heima. Snæddum út á palli í kvöldsólinni og eftir frágang renndum við til tengdamömmu. Þá var ferðinni heitið inn á Þverá í golf. Við spiluðum einn hring en hann tók okkur tvo tíma þar sem við vorum þrjú að spila. Tókum okkur góðan tíma og gekk bara þokkalega. Besti árangur okkar beggja þetta sumariðTounge, þarf reyndar ekki að vera góður til að hljóta þann sessJoyful. Eftir golf komu skötuhjúin heim með Bræður slaka á í pottinum!okkur fengu sér kaffisopa. Bræðurnir fóru í pottinn en konurnar sátu undir hitaranum og spjölluðu, svona eins og enskukunnáttan leyfðiW00t. Tanya er forvitin um líf Íslendinga áður fyrr og veltir ýmsu fyrir sér, meðal annars hvernig fólk komst af hér í þessu landi þar sem kuldi og vindur leikur um flestar árstíðir og lítill skógur og engin kol í jörðu. Bubbi minn kom heim um eittleytið, búinn að fá nóg af djammi enda tekið á því nóttina á undan líka. Gestirnir fóru að ganga tvö í nótt, þá duðruðumst við hjónaleysin fram yfir þrjú en fórum þá að sofa. Sváfum eins og englar til ellefu í morgun. Fullmikill svefn að mínu mati og illa farið með daginn, en það þýðir ekkert að tala um það, verður ekki bakkaðSmile. Stefnan er sett á golf í dag, annað hvort út á Grenó eða jafnvel í Mývatnssveit, veðrið er svo gott, um að gera að nýta það, ekki víst það haldi.

Fleiri myndir hér sem Tanya tók, takk fyrir að deila þeim með okkur TanyaSmile!

Farin út í sólina með Heimsljós, hafið það gott í dag!


Framkvæmdum að ljúka!

DSC00998Við erum núna búin að fá nóg af smíðum olíuáburði og brasi í garði og palli. Pallurinn er búinn W00t nema það á eftir að smíða tvö hlið og ég á eftir að fara aðra umferð með olíu á dótið allt saman. Hliðin bíða bara annað hvort haustsins eða næsta vors, en hitt kemur, umferðin fyrri verður nú að fá að þorna. Við skelltum okkur í RL store og keyptum tvo stóla og dúkkuborð til að setja við þilið, þar verður sko gott að sitja á kvöldin, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Varð nú að skella mér út með myndavél og taka nokkrar myndir af herlegheitunum, minna má það nú ekki vera. Ég er alveg ógeðslega ánægð með árangurinn. Ekki er ég síður stolt af litlu sætu plöntunum mínum (voru sko litlar og sætar fyrir fjórum árum), kvistarnir hvítu hamast DSC00995við að blómstra eins og sjá má á myndinni hér á hægri hönd. Flottur brúðarkvistur. Hér erum við búin að setja punktinn, engar framkvæmdir það sem eftir er árs hvorki úti né inni. Átti reyndar að ljúka eldhúsinu fyrir jólin en ég er ákveðin í að geyma það fram á vor, svo kemur í ljós hvort það stenst. Veðrið var bara fínt bæði í gær og dag. Sól skein í heiði og hér á pallinum okkar var mjög hlýtt þó norðanáttin væri köld og mjög hvöss. Hann spáir svo bæði rigningu og kulda á morgun og sýndist mér helgin ekki féleg. Í næstu viku er stefnan sett á borg óttans, þá verður ábyggilega farið að rigna þar og komið hið besta veður hér. En hvaða máli skiptir það? Maður er manns gaman og til þess förum við í höfuðborgina, að hitta fólk!Tounge

Myndir af pallinum og plöntum hér!


Athena Líf á göngu!

Athena í næstum því fyrsta göngutúrnum sínum. Skellti sér í hann á afmæli frænku sinnar. Athena er hins vegar eins árs 24. júlí.

 


Hvað er með mönnum?

Pétur ÞórFrábærir síðustu tveir dagar. Í fyrradag hringdi litli vinur minn hann Pétur Þór og bað um að fá að gista. Það var auðsótt og um leið og símtali lauk brenndi ég til Grenivíkur að sækja litla skottið. Hann er á spurningaaldrinum blessaður og spurði og spurði alla leiðina inneftir. Tuttugu sinnum að minnsta kosti spurði hann um nafn föður míns, jafnoft um mitt nafn og þegar ég sagðist heita Sigga neitaði hann staðfastlega og sagði frúna heita Sigríði Jóhannsdóttur og hún væri bara kölluð Sigga. Í uppáhaldi er líka að spyrja hvað hinir og þessir bílar heita. Ég er nú ekki vel að mér í slíku en sá stutti er með það á tæru að bíllinn hans sé sko Mitsubitsi Pajero (veit ekki hvort þetta er rétt stafsett) og að minn sé sko Mitsubitsi GalantTounge. Tók nú steininn úr þegar hann spurði hvað ég ætti marga drengi. Ég sagðist bara eiga einn og hann væri nú varla drengur, en því harðneitaði sá stutti. "Þú átt tvo drengi" fullyrti hann. Ég reyndi að malda í móinn en ungi maðurinn sagði að ég ætti sko tvo, "þú átt Bubba og Val"!W00t. Ég veit að ég er kerlingaleg og ég veit líka að Valur er aðeins yngri en ég, en ekki svona mikið.Blush "Valur er maðurinn minn", reyndi ég að halda fram en elskan litla var harðákveðinn. Valur er skal ég segja ykkur drengurinn minn og hana nú!

DSC00974Þegar heim kom tóku pottferðir við. Ég taldi þær ekki en hugsa að þær hafi nálgast tíu bara í fyrradag, annað eins fram að hádegi í gærSmile. Skottið mitt entist ekki lengi í einu svo ég var eins og jójó upp úr og út í. Við náðum líka að fara í Kjarnaskóg og í tojsarös, þar sem það gat auðvitað platað út úr mér forláta björgunarbíl, bara sko af því að Afabjörn (Aðalbjörn) á svoleiðisWoundering

Athena LífRétt um hálftvö í gær komu Odda og mamma ásamt auðvitað Auði Sif og Steinari Adolfi. Alla systir leit inn með Ágúst Má. Þau færðu afmælisbarninu (ég átti sko afmæli í gær, svona dagur sem ég hef helst viljað gleyma síðustu ár) fallegan lífvið í potti til að skreyta pallinnTounge. Mamma og Odda færðu mér gjafir líka, frá mömmu fékk ég æðisleg rúmföt og löber og handklæði frá Oddu og fjölskyldu. Beta, Guddi, Svava, Steinunn, Aðalbjörn Ægir og Athena Líf komu með blómvönd. Allir stoppuðu góða stund og sátum við úti á palli í frábæru veðri, svolítið köldu sem kom ekki að sök þar sem við kveiktum bara á hitaranumWink. Ekki má gleyma að Ægir Adolf og Ágúst Már komu líka í kaffi. Happy

Mamma, Odda og co borðuðu svo með okkur. Renndu þau ekki heim á leið fyrr en að ganga níu í gærkveldi. Frábær dagur með yndislegu fólki. Takk fyrir mig elskurnar mínar. Ég sé það alltaf betur og betur hvað ég er rík, á stóra og góða fjölskylduHeart

Bubbi minn gleymdi heldur ekki deginum hennar mömmzu sinnar, sagðist hafa keyrt hálfa leið út í Blómaval, en snúið viðLoL, nennti ekki alla leið og lét nægja koss á kinn, mér fannst það æðislegt, enda fékk ég nóg af blómum í bili að minnsta kosti. Valur nefnilega færði mér stóran rósavönd og ilmvatnInLove

Þegar húsið var orðið tómt leið mér eins og ég hefði orðið fimmtug, fullt af fallegum gjöfum sem eru yndislegar en bestu gjafirnar voru þó stundirnar með fólkinu mínuHeart

Ég sé að þetta er að verða hálfvæmið og ætla því að hætta núna, þó fyrr hefði verið. Hafið það gott í dag mín kæru, það ætla ég að gera.

 


Leiðindablogg!

Þetta verður enn eitt leiðindabloggið hér í þokunni það er ég viss um. Óhætt er að segja að rólegheit hafi einkennt gærdaginn hjá mér. Valur að vinna, Bubbi reyndar lasinn, fékk einhverja magapest sem honum tókst svo að færa yfir í Val í dag. Hann, það er að segja Valur, liggur því steinsofandi inni í rúmi, vakti í alla nótt með magaverki og uppköst, skemmtilegt það. Þeir tveir eru svoddan pestargemlingar, en ekkert bítur á sterkara kynið á heimilinuLoL. Það sem sagt gerðist fátt markvert á heimilinu í gær. Ég var nú á fótum fyrir sjö, dundaði við að lesa blöðin, og fréttir á netinu. Tók lítinn blogghring, fór í ljós, en það hef ég ekki gert í fimm ár, heimsótti tengdó og las ofurlítið í Heimsljósi. Ég vona bara að sólin fari að láta sjá sig, er orðin hundleið á að hanga svona inni. Þetta er versta sumar sem ég hef upplifað síðan ég flutti til Akureyrar. Mörg hafa verið köld en oftast einhver sól sem mátti sitja í í skjóliShocking. Einhver sagði mér að þetta lagaðist um miðjan júlí, þá kæmi sumarið á Norðurlandi, vona bara að það sé rétt.

Í dag er fátt í farvatninu. Fer reyndar í klippingu og litun en annað óplanað. Held ég láti ljósabekkina vera þó mér leiðist veðráttan, ekkert þykir mér leiðinlegra en að liggja í þessum bekkjum. Eina góða er að nú tekur þetta ekki nema svona 12 mín. þegar ég fór í fyrsta skipti í ljós tók það hálftíma og lengi var tíminn 20 mín. Sumir sofna í bekkjunum en það hefur mér aldrei tekist, ég tel niður eins og ég sé að bíða eftir að geimflaug sé skotið á loftTounge. En nú er ég búin að prófa þetta og læknuð í bili, frekar verð ég með hvítan maga og lærWhistling.

Hafið það gott í dag mín kæru og munið að ganga hægt um gleðinnar dyr!Joyful


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband