12.7.2008 | 13:49
Hvað er með mönnum?
Frábærir síðustu tveir dagar. Í fyrradag hringdi litli vinur minn hann Pétur Þór og bað um að fá að gista. Það var auðsótt og um leið og símtali lauk brenndi ég til Grenivíkur að sækja litla skottið. Hann er á spurningaaldrinum blessaður og spurði og spurði alla leiðina inneftir. Tuttugu sinnum að minnsta kosti spurði hann um nafn föður míns, jafnoft um mitt nafn og þegar ég sagðist heita Sigga neitaði hann staðfastlega og sagði frúna heita Sigríði Jóhannsdóttur og hún væri bara kölluð Sigga. Í uppáhaldi er líka að spyrja hvað hinir og þessir bílar heita. Ég er nú ekki vel að mér í slíku en sá stutti er með það á tæru að bíllinn hans sé sko Mitsubitsi Pajero (veit ekki hvort þetta er rétt stafsett) og að minn sé sko Mitsubitsi Galant
. Tók nú steininn úr þegar hann spurði hvað ég ætti marga drengi. Ég sagðist bara eiga einn og hann væri nú varla drengur, en því harðneitaði sá stutti. "Þú átt tvo drengi" fullyrti hann. Ég reyndi að malda í móinn en ungi maðurinn sagði að ég ætti sko tvo, "þú átt Bubba og Val"!
. Ég veit að ég er kerlingaleg og ég veit líka að Valur er aðeins yngri en ég, en ekki svona mikið.
"Valur er maðurinn minn", reyndi ég að halda fram en elskan litla var harðákveðinn. Valur er skal ég segja ykkur drengurinn minn og hana nú!
Þegar heim kom tóku pottferðir við. Ég taldi þær ekki en hugsa að þær hafi nálgast tíu bara í fyrradag, annað eins fram að hádegi í gær
. Skottið mitt entist ekki lengi í einu svo ég var eins og jójó upp úr og út í. Við náðum líka að fara í Kjarnaskóg og í tojsarös, þar sem það gat auðvitað platað út úr mér forláta björgunarbíl, bara sko af því að Afabjörn (Aðalbjörn) á svoleiðis
Rétt um hálftvö í gær komu Odda og mamma ásamt auðvitað Auði Sif og Steinari Adolfi. Alla systir leit inn með Ágúst Má. Þau færðu afmælisbarninu (ég átti sko afmæli í gær, svona dagur sem ég hef helst viljað gleyma síðustu ár) fallegan lífvið í potti til að skreyta pallinn
. Mamma og Odda færðu mér gjafir líka, frá mömmu fékk ég æðisleg rúmföt og löber og handklæði frá Oddu og fjölskyldu. Beta, Guddi, Svava, Steinunn, Aðalbjörn Ægir og Athena Líf komu með blómvönd. Allir stoppuðu góða stund og sátum við úti á palli í frábæru veðri, svolítið köldu sem kom ekki að sök þar sem við kveiktum bara á hitaranum
. Ekki má gleyma að Ægir Adolf og Ágúst Már komu líka í kaffi.
Mamma, Odda og co borðuðu svo með okkur. Renndu þau ekki heim á leið fyrr en að ganga níu í gærkveldi. Frábær dagur með yndislegu fólki. Takk fyrir mig elskurnar mínar. Ég sé það alltaf betur og betur hvað ég er rík, á stóra og góða fjölskyldu
Bubbi minn gleymdi heldur ekki deginum hennar mömmzu sinnar, sagðist hafa keyrt hálfa leið út í Blómaval, en snúið við, nennti ekki alla leið og lét nægja koss á kinn, mér fannst það æðislegt, enda fékk ég nóg af blómum í bili að minnsta kosti. Valur nefnilega færði mér stóran rósavönd og ilmvatn
Þegar húsið var orðið tómt leið mér eins og ég hefði orðið fimmtug, fullt af fallegum gjöfum sem eru yndislegar en bestu gjafirnar voru þó stundirnar með fólkinu mínu
Ég sé að þetta er að verða hálfvæmið og ætla því að hætta núna, þó fyrr hefði verið. Hafið það gott í dag mín kæru, það ætla ég að gera.
Vinir og fjölskylda | Breytt 17.7.2008 kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2008 | 07:59
Hvað er með ásum?
Þá er ég klædd og komin á ról þó klukkan sé ekki átta, ég í sumarfríi og engin sól frekar en fyrri daginn. Einu sinni mér áður brá. Fyrir tíu árum hefði ég sko sofið á mínu græna fram undir hádegi og ekki fundið fyrir því. Ég hefði reyndar líka vakað lengur frameftir. Nú er ég alltaf orðin syfjuð í kringum sjónvarpsfréttir og gæti hugsað mér að skríða inn og sofa. Geri það nú ekki en oft er ég sofnuð fyrir miðnætti, sem gerðist ekki fyrir örfáum árum
. Alla vega er ég komin á fætur alla daga fyrir sjö, bara eins og ég væri í vinnu. Notalegt að geta setið í friði og ró, lesið blöðin og ráðið Soduku eða orðagátur ýmiskonar (hef samt ekki reynt við sunnudagsgátu Moggans, skil hana ekki) og jafnvel verið búin að þvo vél og hengja úr henni fyrir tíu
. Þegar þarf að slá lóðina þarf ég þó að bíða fram til níu, alla vega finnst mér það huggulegra, þar sem ég veit að sumir sofa lengur en ég og allt í lagi að taka tillit til þeirra (nágrannar)
.
Ég hafði það bara gott hér heima í þokunni í gær. Fór í klippingu og litun sem kominn var tími á. Talandi um það þá þykir mér þetta dýr þjónusta. Ég sem sagt fór í klippingu og var lituð í rót og þurfti að reiða fram 9500 krónur fyrir herlegheitin. Ég er orðin grá fyrir hærum og þarf að láta lita á 4-6 vikna fresti ef vel á að vera og mér þykir þetta nokkuð dýrt þess vegna. Reyndar fer ég oftast í heillitun og þá þarf ég að borga um 12000 kall
. En alla vega er ég voða fín, eða var það í gær, ekki mjög fín nývöknuð og ekki búin að greiða mér
.
Þá vona ég bara að dagurinn fari vel með ykkur, kannske lætur sólin sjá sig, hvur veit!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.7.2008 | 08:24
Leiðindablogg!
Þetta verður enn eitt leiðindabloggið hér í þokunni það er ég viss um. Óhætt er að segja að rólegheit hafi einkennt gærdaginn hjá mér. Valur að vinna, Bubbi reyndar lasinn, fékk einhverja magapest sem honum tókst svo að færa yfir í Val í dag. Hann, það er að segja Valur, liggur því steinsofandi inni í rúmi, vakti í alla nótt með magaverki og uppköst, skemmtilegt það. Þeir tveir eru svoddan pestargemlingar, en ekkert bítur á sterkara kynið á heimilinu. Það sem sagt gerðist fátt markvert á heimilinu í gær. Ég var nú á fótum fyrir sjö, dundaði við að lesa blöðin, og fréttir á netinu. Tók lítinn blogghring, fór í ljós, en það hef ég ekki gert í fimm ár, heimsótti tengdó og las ofurlítið í Heimsljósi. Ég vona bara að sólin fari að láta sjá sig, er orðin hundleið á að hanga svona inni. Þetta er versta sumar sem ég hef upplifað síðan ég flutti til Akureyrar. Mörg hafa verið köld en oftast einhver sól sem mátti sitja í í skjóli
. Einhver sagði mér að þetta lagaðist um miðjan júlí, þá kæmi sumarið á Norðurlandi, vona bara að það sé rétt.
Í dag er fátt í farvatninu. Fer reyndar í klippingu og litun en annað óplanað. Held ég láti ljósabekkina vera þó mér leiðist veðráttan, ekkert þykir mér leiðinlegra en að liggja í þessum bekkjum. Eina góða er að nú tekur þetta ekki nema svona 12 mín. þegar ég fór í fyrsta skipti í ljós tók það hálftíma og lengi var tíminn 20 mín. Sumir sofna í bekkjunum en það hefur mér aldrei tekist, ég tel niður eins og ég sé að bíða eftir að geimflaug sé skotið á loft. En nú er ég búin að prófa þetta og læknuð í bili, frekar verð ég með hvítan maga og lær
.
Hafið það gott í dag mín kæru og munið að ganga hægt um gleðinnar dyr!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.7.2008 | 08:23
Frábær dagur!
Sunnudagur í gær eins og alþjóð veit. Mikið svakalega þótti mér hann eitthvað notalegur. Gerði ekki neitt. Vaknaði bara fór með kaffi og blað út á pall í sólina (þar var að vísu svolítið kalt, enda vaknaði ég snemma) og sleikti sólina. Auður Sif og Steinar Adolf gistu, en þau sváfu auðvitað frameftir eins og barna í minni familý er siður Þegar þau risu tók við skutl með þau. Steinar heimsótti vin sinn hér í bæ og Auður hitti vinkonu á Glerártorgi. Múttan þeirra kom svo upp úr hálf tvö að sækja þau þar sem verið var að fara á Kung Fu Panda. Pétur Þór var með mömmsunni sinni en var alveg til í að skippa bíóferðinni og vera hjá Siggu sinni í staðinn. Hann fékk svo að heimasækja mig smá eftir bíó. Tilkynnti þá að hann væri ekki með sundskýlu, langaði greinilega í pottinn en mamma hans vildi ekki leyfa svo ég var ekkert að skemmileggja uppeldið að þessu sinni með því að segja já (geri og mikið af því er mér sagt
).
Halldór bróðir Vals og kona hans Tanya komu hér eftir hádegi, við sátum úti á palli og löptum með þeim kaffisopann. Buðum þeim svo að koma í kvöldmat, ég var ákveðin í að grilla og borða úti. Þegar ég er svona ákveðin verður engu breytt. Við borðuðum úti mjög góðan mat í frekar miklum kulda. Hitarinn gekk á fullu svo Íslendingunum leið ágætlega, en hinni rússnesku Tönyu þótti kalt. Þó lét ég hana dúða sig með öllu RL store teppum sem ég fann á heimilinu
, Val mínu þótti reyndar ekki mikið þó henni væri kalt þar sem ekkert er utan á henni auk þess sem hún borðar ekki kjöt
. Bræðurnir fóru í pottinn eftir matinn en við konurnar sátum undir hitaranum, önnur feit kjötæta og var ekki kalt, hin grönn grænmetisæta og var kalt
. Spurning hvort víkingsgenin séu bara svona sterk! Kvöldið var gott þrátt fyrir kuldann og þokuna og heim fóru gestirnir að ganga tíu í gærkveldi. Við hjónaleysin settumst við sjónvarp í stutta stund en gáfumst fljótt upp þar sem svefninn ætlaði sigur að hafa, sem hann hafði inn í rúmi löngu fyrir miðnætti.
Þar til síðar hafið það gott elskurnar mínar! Yfir og út!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.7.2008 | 15:52
Hitt og þetta hafast að.........
... en við erum samt ekkert að henda, brjóta og týna. Þessi laugardagur verið þægilegur. Byrjuðum hann á golfi inn á Þverá. Frekar hefur mér farið aftur, enda léleg ástundun þetta sumarið. Veðrið var þó með eindæmum gott, svo heitt að við slepptum einni holu, þeirri áttundu. Yfir Akureyri hékk dimmt ský þegar við keyrðum heim, sólarlaust en hún fór að skína fljótlega. Líklega til að ég fengi að svitna enn meira við sláttinn á lóðinni
.
Auður Sif gisti hjá okkur í nótt, hún var sofandi þegar við fórum í golfið og farin í sund með vinkonu sinni þegar við komum heim. Hún hringdi áðan og sagðist vera að fara með vinkonunni í Lund, ekki spyrja mig hvaða Lund (held að þetta hafi átt að vera með stóru elli, kannske var hún bara að fara í lautarferð, veit ekki). Það kemur nú í ljós fljótlega því bráðum kemur hún heim. Steinar Adolf hringdi áðan og bað um gistingu í nótt, það var auðsótt og verðum við því tveggja barna foreldrar for one night
.
Valur borar og smíðar og skrúfar og brasar. Nú á að reyna að ljúka við pallinn, ganga frá kringum pottinn og smíða vegg, svo okkur líði ekki eins og á sýningarpalli þegar hann er notaður. Ég hef bölvað öspunum í sand og ösku frá því við fluttum en núna geri ég það ekki, þær eru veggur í bili.
Held ég rölti út með Heimsljós, farið vel með ykkur elskurnar mínar!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.7.2008 | 11:02
Sumt skilur maður ekki!
Einkennilegt margt í kýrhausnum. Hvað veldur því að stjórnvöld senda flóttamann úr landi á vit örlaganna, til Ítalíu bara vegna þess að þar millilenti vélin sem hann var í? Hvers konar skriffinnskukerfi er þetta eiginlega? Ætli þeir sem starfa hjá Útlendingastofnun (eða Dómsmálaráðuneytinu) og taka svona ákvarðanir vildu að svona yrði farið með þá eða þeirra? Ég er nú bara á þeirri skoðun að kristilega siðgæðið sem skólar hafa starfað eftir hér á landi og öllum finnst svo mikilvægt að halda inni í lögunum hafi ekki skilað sér til þeirra. Konungurinn sagði: Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín. Og hann sagði einnig þetta: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. (Úr Matteusarguðspjalli) Ég er nú farin að hljóma eins og trúboði, en mér finnst framkoma stjórnvalda í þessu máli ekki bera vott um manngæsku og góðvild og hana nú! Ekki það að ég sé einhver engill sem aldrei gerir neinum neitt, en svona lagað gæti ég ekki gert. Frekar yrði ég atvinnulaus!
Annars allt meinhægt hér hjá okkur þremenningunum eða ætti ég að telja kettina með? Þá erum við Fimm á Hulinsheiði, eða eitthvað í þeim dúr. Ég vaknaði með vinnumönnunum mínum í morgun, ætlaði að vera svo dugleg en minna hefur farið fyrir því. Er nú samt búin að fara með dagblöð og fernur í gámana, ætlaði að henda bylgjupappa einnig, en fann engan svoleiðis gám. Gámasvæðið lokað til eitt svo ég rúnta bara með svaka pappa í aftursætinu. Þetta var svo fyrirferðarmikið að ég þurfti að hafa afturgluggann opinn svo það kæmist fyrir þannig að ég ligg frekar dauð en rífa þetta úr bílnum aftur bara til að troða því aftur inn og rífa aftur út klukkan eitt. Þess vegna vakti ég athygli mikla þegar ég fór að versla í Bónus áðan. Baðaði mig í þessari athygli enda athyglissjúk kona.
Nú þarf ég að fara að taka úr rúmum og setja í þvottavél, slá lóðina, klippa og reyta arfa og annað óæskilegt úr beðum, henga út, setja í aðra þvottavél, þrífa hér inni (helst)......................, segið svo að húsmæður geri ekki neitt
Hafið það gott í sólinni, á upptalningunni hér að ofan mætti halda að ég ætlaði ekki að gera það en það er hinn argasti misskilningur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.7.2008 | 08:32
Og það stytti upp!
...eða ég held það. Allavega blæs ekki úr norðri þessa stundina. Það er samt engin sól, er hún kannske dottin af himninum? Æ, best að láta þetta veður ekki pirra sig, hefst lítið með því, enda get ég ekki breytt því
.
Gærdagurinn endaði betur en rigningarbloggið mitt benti til. Ég tók mér bók í hönd og hóf lestur. Réðst ég að Heimsljósi Laxness, aðeins að snobbast og lesa fínan rithöfund. Hef reyndar lesið þá bók áður, en það er orðið langt síðan og gaman að rifja upp, verð vonandi búin með bókina fyrir sumarlok. Sumum finnst Laxness leiðinlegur, það þótti mér líka einu sinni, en skipti um skoðun fyrir margt löngu. Það var minnir mig í menntaskóla, sem ég neyddist til að lesa Sjálfstætt fólk og lærði að meta. Á núna stóran hluta af safninu karlsins og hef lesið margar, en ekki allar. Sumar eru reyndar bara leiðinlegar, en margar eru góðar. Oft snúast þær um neyð, fátækt og skelfingu en samt er húmorinn flottur. Ég fæ samviskubit yfir því að geta hlegið þegar verið er að lýsa neyð, en ég skelli samt uppúr við lesturinn, kannske er ég bara svona mikið kvikindi í mér.
Það rættist sem sagt heldur betur úr gærdeginum. Ekki skemmdi það að húsið fylltist af yndislegu fólki þegar leið á daginn. Maður er manns gaman, þegar upp er staðið og þótti mér miklu skemmtilegra að fá Grenvíkingana mína litlu ásamt Oddu og mömmu í heimsókn heldur en að sitja yfir einhverri skræðu. Þau sem sagt komu í gær. Auður Sif var að spila fótbolta, Magnastelpur gegn Þórsstelpum (ég held sko með Magna) en mínar töpuðu, illa. Ætla ekkert að nefna tölur
. Ég sauð hangikjöt með soðna brauðinu og snæddu Grenvíkingarnir með okkur. Ægir Adolf og Inga Steinlaug litu með Ágúst Má. Litli maðurinn varð nú að fá að hitta Pétur Þór vin sinn. Það var svo ekki fyrr en klukkan að verða níu í gærkveldi sem fólkið renndi heim á leið. Gott að fá góða gesti.
Nú sé ég að sú gula er fundin, hún er eitthvað að reyna að glenna sig gegnum skýþykknið. Hafið það nú gott í dag, hvort sem sólin skín eður ei! Nú er ég farin að lesa, held að ekki sé nógu hlýtt fyrir sólbað á pallinum.
2.7.2008 | 14:50
Góðan og blessaðan...
....daginn! Veitir ekki af að óska Norðlendingum þess í þessu frábæra veðri. Velti því fyrir mér hvert ég á að flytja
, ekki gæti ég búið í höfuðborginni, veit að ekki rignir minna þar en hér (hef sko reynt það) þó sú sé ekki raunin nú í augnablikinu. Held bara að ástandið sé að verða eins og á myndinni hér til hliðar. Hins vegar segja veðurfræðingarnir að þetta horfi til betri vegar og þá er bara að vona að spáin þeirra rætist. Helgin ku eiga að vera góð, best að vera bjartsýn. Ég gæti nú svo sem notað tímann og reynt að gera eitthvað, ég á til dæmis að kenna námsefni sem ég hef aldrei kennt fyrr næsta skólaár, annars vegar stærðfræði (nýja námsefnið) og hins vegar náttúrufræði, en ég bara nenni ekki að líta á þetta ef satt skal segja og ég er nú af ólygnum komin
! Eins minnir mig að það sé gaman að lesa
, en það er bara svo langt síðan ég hef tekið bók í hönd, mér til skemmtunar það er að segja, að ég er ekki viss um að ég kunni það lengur
. Máske ég prófi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.7.2008 | 15:12
Hvað, er komið sumar?
Að minnst kosti segir almanakið það. Kominn júlí og ég held að hægt sé að fullyrða að það sé kaldara en var hér í desember í fyrra. Hvað er bara í gangi, ég hef nú áður minnst á þessa bévítans norðanátt sem er hér öll sumur, sunnanáttin smellir sér að landi í lok ágúst og blæs fram í janúar, febrúar og þá snýst þetta við. Einhvern tímann man ég eftir að pabbi segði að þessar tvær áttir vörðu í álíka langan tíma, veit ekkert hvort það er rétt, hann var nú bara sjóari og hvað vita þeir um veður frekar en fiskerí?
Hins vegar var ég að skoða spána (spánna eins og sagt er á Stöð 2
) og það er bara útlit fyrir sól og aðeins hlýindi seinnipart vikunnar, vonandi að það gangi eftir.
Hins vegar notaði ég þennan rigningarmorgun ágætlega. Skellti mér í bakarí og með það sem þar var keypt út á Grenivík. Rændi mömmu gömlu af Grenilundi og fór með hana í Hafblik. Þar heimtuðum við að húsmóðirin hellti upp á, sem var auðsótt. Við sátum svo að kræsingum fram að hádegi og spjölluðum auðvitað um alla heima og geima. Litlu ljósin mín voru heldur betur upptekin, það yngsta var á leikskóla, miðgæinn á fótboltaæfingu og þar á eftir að taka þátt í móti, hún Auður Sif var reyndar heima, en ákaflega upptekin í tölvunni með vinkonu sinni
. Ég skilaði svo mömmu um hádegi, mátti nú ekki hafa af henni hádegismatinn
og renndi þá heim á leið. Þegar þangað kom skellti mér í að hnoða í soðið brauð. Búin að steikja svo karlarnir mínir verða kátir þegar þeir koma þreyttir heim í kvöld. Ég alveg dáist að því hvað ég er myndarleg húsmóðir
, veit ekki hvar þetta endar. Nei, þarf ekki að hafa áhyggjur, svona dugnaður grípur ekki um sig í mínum kroppi nema mesta lagi einu sinni á ári, ekki reikna með að fá heimabakað með kaffinu ef þið einhvern tímann lítið
!
Gangið hægt um gleðinnar dyr elskurnar mínar, mín reynsla segir að það sé farsælast!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.6.2008 | 17:12
Í dagsins önn!
Eftir að hafa dundað við gardínuþvott, straujárn og upphengingu, ákvað ég að bregða mér af bæ. Hilda mín hafði beðið mig að líta og fannst mér það frábær hugmynd að hitta einhvern að spjalla við í þessu leiðindaveðri. Ég stoppaði góða klukkustund hjá henni þar sem við ræddum skólamál auk þess sem hún sýndi mér hluta af myndunum sem hún tók á siglingunni sem þau hjónin fóru í vor með skemmtiferðaskipi. Þau eru sko ekkert smá flott, bæði sest í helgan stein en eru samt svo sannarlega ekki sest í neinn helgan stein. Þau ferðast og njóta lífsins í botn, svona á fólk að hafa það þegar starfsævinni lýkur, ég segi nú ekkert annað
.
Eftir heimsókn lá leiðin í Hrísalund til að versla sér fisk í soðið. Ég endaði heima með bæði glænýja ýsu og ýsuhakk, sem ég ætla að gera fiskibollur úr. Helv.... dugnaður er þetta? Nú styttist í að karlarnir mínir komi heim og þá þarf ég fljótlega að fara að huga að soðningunni handa þeim elskulegum, enda svangir eftir kaldan vinnudag.
Ákveðin í því að skella mér til Grenivíkur á morgun, hitta elskurnar mínar litlu og auðvitað hana múttu!