1.8.2008 | 13:20
Versló!
Þá er verslunarmannahelgin að bresta á rétt eina ferðina. Sumir Akureyringar hafa undanfarin ár haldið hátíð við misjafnar undirtektir annarra Akureyringa. Ég fylli hvorugan hópinn, ég er sem sagt hvorki sumir né aðrir Akureyringar, mér er bara slétt sama. Kannske er það vegna þess að ég er ekki verslunarmaður að mér er sama eða vegna þess að ég er svo heppin að búa ekki í miðbænum eða við tjaldstæðið í Þórunnarstræti, veit ekki. Hins vegar hafði ég skoðun og hef á ógestrisninni í fyrra þegar mönnum datt í hug að banna fólki sem orðið var sjálf- og fjárráða að dvelja á tjaldstæðum bæjarins. Man að ég hitti frændfólk mitt uppi í tjaldstæðinu í fyrra og þar hékk skilti sem á stóð að yngri en 21 árs væri óheimilt að tjalda nema í fylgd með forráðamönnum. Skondið þar sem fólk á Íslandi á enga forráðamenn eftir 18 ára aldur. Mér fannst þetta með eindæmum enda altalað um allt land. Auðvitað er það skelfilegt hvernig margir haga sér um þessa helgi, en staðreyndin er sú að mikill meirihluti fólk er til sóma hvort sem menn eru orðnir tuttuguogeins eða ekki. Ekki á að hengja bakara fyrir smið og telja alla á ákveðnu aldursskeiði til vandræða, heldur þarf bara að kosta verulega til gæslu á þessum svæðum. Pakka óróaseggjunum saman áður en þeir valda verulegu tjóni
Helgin þessi verður haldin hátíðleg á mikilla láta hér á þessu heimili. Ungi maðurinn keypti sér reyndar slatta af bjór á miðvikudag og byrjaði ballið í gær, en allt án óróa og verður vonandi svo út helgina. Ég sótti mömmu til Grenivíkur í gær og ætlar hún að vera hjá okkur fram á sunnudag eða mánudag. Alltaf jafnnotalegt að hafa þá gömlu hjá sér. Við fórum í pottinn í gærkveldi og dreif hún sig út á pallinn og sat með okkur undir hitaranum fram yfir miðnætti. Flott kerla!
Læt þetta duga hér í norðlensku sólinni. Gangið hægt um gleðinnar dyr og þið sem eruð á ferðalagi akið varlega!
Athugasemdir
Góðan daginn mín kæraSé að þín versló er svipuð og mín..... fer eiginlega að megninu til framhjá
Jónína Dúadóttir, 3.8.2008 kl. 06:39
Já, hef það bara rólegt heima fyrir, sest út á pallinn minn góða nú eða í pottinn, lep upp úr einni eða tveimur baukum eða glösum og sef svo eins og engill. Heyri ekki læti eða hávaða, eins og ekki séu gestir í bænum. Fram að þessu hefur helgin líka gengið vel í bænum okkar sem mér þykir frábært að heyra. . Knús á þig!
Sigríður Jóhannsdóttir, 3.8.2008 kl. 11:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.