20.6.2008 | 13:32
Hitt og þetta hafast að...!
Þegar ég vaknaði loksins í morgun var maðurinn búinn að grafa allt þetta sem sést hér á myndinni til hliðar. Dugnaðurinn virðist vera að ganga frá honum á meðan letin á öll völd í mínum skrokki. Hann er þó ekki að grafa eftir gulli heldur þarf víst að leggja lagnir frá heita pottinum sem nota bene hann vildi endilega fá. Ég er því algjörlega saklaus af þessari fyrirhöfn og hef ekkert samviskubit þó blessaður maðurinn púli. Gaman væri þó ef hann kæmi niður á gullæð, eða kannske olíu, veitti ekki af því í þessari dýrtíð. Meðan maðurinn leggur sig allan fram í skurðarvinnu leik ég sæta og fína húsmóður. Baka samt ekki handa honum, fer bara í bakaríið, milli þess sem ég þurrka ryk og skúra, auk þess sem ég sest af og til við tölvuna og les um hugsanlega ísbirni á hálendinu. Er nú svo illa innrætt að ég hugsaði með mér að þessi hafi fengið nóg af gestrisni Norðlendinga og ákveðið að skella sér suður yfir heiðar, þar er nefnilega ákaflega gott fólk sem skýtur ekki ísbirni. Ein frétt í dag þótti mér best, Ronaldo fer ekki frá Man Utd, mér er alveg sama þó hann hafi gefið út einhverjar yfirlýsingar um að hann vildi fara, maðurinn á sig sko ekki sjálfur og á ekkert að hafa neitt um það að segja. Nei, nei, auðvitað er ekki gott að hugur hans sé annars staðar en hjá því félagi sem hann spilar fyrir, en þetta ræðst nú allt á haustdögum líklega.
Nú ætla ég að athuga hvort maðurinn er kominn undir stéttina hérna úti, máske ég geti fært honum eitthvað að drekka, þó ekki sé mjög heitt úti þá hitnar blessuðum við púlið.
Vonandi fer þessi föstudagur vel með ykkur öll!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.