Færsluflokkur: Bloggar
23.9.2008 | 20:57
Landsbankastjórnendur!
Langur vinnudagur að kveldi kominn. Var að detta heim rétt fyrir hálfátta og er ef satt skal segja kúguppgefin. Eftir venjulegan vinnutíma var sem sagt árlegur haustfundur með foreldrum skjólstæðinga minna. Að vanda skemmtilegur og fjörugur. Þegar börnin okkar breytast í unglinga verður ýmislegt léttara og auðveldara en annað kannske meira áhyggjuefni og erfiðara. Spurningar um útivistartíma, hversu vel má treysta, á að láta vita og þá hverja ef við sjáum unglingana okkar gera eitthvað sem við vitum að þeir eiga ekki að vera að gera, sem sagt berum við ábyrgð saman á börnum og unglingum? Það er mín skoðun að það sé skylda okkar sem borgarar þessa lands að láta okkur alla varða, líka börn og unglinga annarra. Væri kannske minna um unglingadrykkju og reykingar ef við létum okkur þessi mál varða, bæði áður en við eignumst sjálf unglinga og eftir? Mín reynsla segir mér að þessi mál hvíla á foreldrum og þeir vilja ræða þau, vilja bæta úr og laga af því öll elskum við börnin okkar og viljum þeim það besta. Því er gott að gefa fólki tækifæri til að ræða saman og skiptast á skoðunum.
Þegar þriðjudagurinn er búinn finnst mér meiri partur vinnuvikunnar á enda runninn. Langir dagar hjá okkur í Síðuskóla og mikið fundað. Þegar þessari löngu fundartörn lýkur klukkan 17 eiga flestir kennarar eftir að undirbúa næsta dag. Ég á það eftir og vitið þið hvað, ég ætla bara að slaufa því í þetta skiptið. Á morgun verður sem sagt viðhöfð svokölluð blindkennsla, (reyndar bönnuð í Kennaraháskólanum fyrir 18 árum og ég vona að lærifeður mínir þaðan álpist ekki inn á síðuna) ég sem sagt veit hvað ég á að kenna á hverjum tíma en ekkert nánar útfært og guð og lukkan látin um hvernig til tekst. Ég verð flinkari og flinkari við þessa kennsluaðferð eftir því sem aldurinn og reynslan færist yfir skal ég segja ykkur. Ákaflega ófaglegt, en skítt með kerfið, við lifum þetta af bæði ég og börnin og ég er viss um að þetta kemur ekkert í veg fyrir að einhverjir skjólstæðinganna verði bæði læknar og lögfræðingar og Landsbankastjórnendur
Of seint að óska ykkur góðs dags svo ég óska ykkur yndislegs kvölds í staðinn og vona að dagurinn hafi farið vel með ykkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.9.2008 | 19:51
Vinnuvikan hafin!
Já, hún gekk í garð með látum. Prófayfirferð, prófagerð, námsvísagerð, haustfundir og svo lengi mætti telja. Svei mér ef tími verður til nokkurs annars en að vinna næstu daga. Annar gekk allt ljómandi að vanda, blessaðir nemendurnir eru alltaf yndislegir og það er virkilega gaman að vera í samskiptum við þá. Væri alveg til í að kenna bara, ráða einhvern annan í þetta sem ég taldi upp hér fyrst. En lífið er ekki þannig að velja megi bara það sem er skemmtilegt og gott og auðvitað vinn ég þennan leiðinlegri hluta starfsins eins vel og ég get. Ég var að enda við að fara yfir eitt stykki próf, á annað eftir, auk sjálfsprófs, en ætla að geyma þau til morguns, enda klukkan að verða átta og vinnudagurinn að detta í 12 klukkustundir. Lái mér hver sem getur eða vill fyrir letina.
Gærdagurinn var indæll, Grenvíkingarnir mínir komu. Mamma var hjá okkur meðan Odda fór með börnin sín í bíó og komu þau eftir það í vöfflukaffi. Frábært alltaf að fá góða gesti.
Farið vel með ykkur, vonandi verður kvöldið notalegt og nætursvefninn vær!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.9.2008 | 10:14
Lífið er gott!
Ég var búin að skrifa langan pistil um lífið þessa helgina, en kom svo við músina og allt hvarf. Djö..... þoli ég þetta ekki. Ég nenni ekki að byrja upp á nýtt en ætla samt að deila því að þessi helgi hefur verið góð. Veikindin á bak og burt eða svona næstum því, bara helv.... kvef í öllum nema köttunum, Öbbupartý á föstudag, matarboð í gær Grenvíkingarnir í dag og vinnuvika á morgun.
Vona að dagurinn fari vel með alla. Kveð að sinni, yfir og út!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.9.2008 | 18:11
Veðurhamurinn!
Vinnuvikan alveg að renna sitt skeið. Bara verið gaman í vinnunni svona minnsta kosti flesta daga. Í dag fórum við til dæmis í Davíðshús og skoðuðum, það var gaman, alltaf gaman að gera eitthvað annað með nemendum en að sitja yfir skruddum þó stundum geti það líka verið skemmtilegt, allt eftir því hvað skal numið. Í Davíðshúsi eða utan við það sáum við svo ekki var um villst að veðrið var hrikalegt í fyrrinótt. Þá nótt svaf ég sko ekkert, en slíkt hefur aldrei komið fyrir mig fyrr það er að segja að ég gæti ekki sofið vegna veðurs, enda alin upp í hálfgerðu veðravíti (ekki misskilja, stundum er veðrið líka yndislegt á Grenó). En aftur að Davíðshúsi, þar lá skal ég segja ykkur stærðar ösp á hliðinni og rætur upp úr, bolurinn heill en tréð hafði rifnað upp með rótum í látunum. Rætur á öspum eru engin smá smíði hef þurft að fjarlægja þær nokkrar af lóðinni, að taka trén er ekkert mál hjá því að ná rótinni. Hér fuku sem betur fer engin tré upp með rótum, en ég var á þönum eftir garðhúsgögnum eftir klukkan 0202 umrædda nótt. Ég er nebblega svo klár að ég batt hitarann og grillið, en lét plasthúsgögn bara vera, útlit fyrir að fólkið á heimilinu falli ekkert um vitið, en ekkert skemmdist, nema jú rósin mín fallega, hún stendur nú bæði blað og blómlaus úti í beði.
Haustlaukarnir eru komnir í hús og líklega mun hluti af helginni fara í að moldvarpast, það er nú bara gaman. Hef síðustu ár pantað mér lauka gegnum Sigga samstarfsmann minn og finnst mér það mjög skemmtilegt. Allra handanna torkennileg blóm skjóta upp kollinum hjá okkur sum árin. Meðal annars svartir túlipanar, sem Pétur Þór vinur minn reif upp með laukum af því honum þótti þetta ljót blóm. Sum árin koma þó blómin á óvart. Í vor voru þau öll bleikleit og út í ljósfjólublátt, hins vegar pantaði ég lauka í öllum litum regnbogans. Það gerði ég líka þetta haustið og verður gaman að sjá komandi vor hver afraksturinn verður
Annað kvöld ætla ég svo að djamma pínu með samstarfsfólki, bara oggopínulítið. Farið vel með ykkur elskurnar og passið ykkur á bílunum, þeir eru sko stórhættulegir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.9.2008 | 20:49
Status quo!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.9.2008 | 11:44
Svefninn, besti læknirinn!
Veikindaskrattinn er að fara úr mér, auðvitað, er aldrei veik sem betur fer. Hef samt ábyggilega litið skelfilega út í gær þar sem sonurinn, já meira að segja sonurinn hafði það á orði í gær en þau rúm tuttugu og tvö ár sem ég hef búið með honum man ég aldrei eftir slíkum athugasemdum, hvorki jákvæðum né neikvæðum. Ég tæklaði veikindin með miklum svefni og óhóflegu verkjatöfluáti, svona á sko að gera þetta. Náði þó að horfa á Utd tapa fyrir Liverpool og keyra fjóra hressa unga menn inn að Þverá. Þar voru sko Bubbz og þrír samstarfsfélagar að fara á golfmót ásamt öðrum vinnufélögum. Held reyndar að kannske hafi þeir ekki endilega verið að keppa í golfi heldur einhverju öðru.
Veðrið var indælt í gær, 17-18 stiga hiti og sólarverma, það sá ég milli þess sem ég svaf og bruddi. Núna er rok en þokkalega hlýtt þannig að kannske fer ég bara út á eftir og smelli mér einn illgresishring í garðinum mínum, já bara svona til að geta sagst hafa gert eitthvað annað en sofa þessa helgina.
Valur minn eyðir flestum frídögum niðri í bílskúr. Þar er hann að dytta að gömlu fákunum okkar, þetta gamla þarf alltaf mikinn tíma og athygli, ég hlakka til að verða gömul. Hafið það gott í dag elskurnar og farið vel með ykkur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.9.2008 | 11:29
Guðs vilji!
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort eitthvað sé í kollinum á bandarískum stjórnmálamönnum og hef komist að niðurstöðu sem er þeim ekki í hag. Nýjasta rósin í því hnappagati verður kannske varaforseti þessa ágæt lands, Sarah Palin. Hún ku vera afar trúuð, sem er auðvitað gott, ef hún eins og svo margir kollegar hennar, teldi sig ekki sérlegan talsmann þess máttar. Ég var inn á Youtube í gærkveldi og henti nafninu hennar í leit að gamni mínu og fékk fullt af niðurstöðum. Konan er á myndböndum þessum að halda ræður, eðlilega, það er nú það sem stjórnmálamenn gera. Hún telur sig sérlegan talsmann guðs, eða er inni í öllu því sem hann vill. Íraksstríðið er vilji guðs (War in Iraq is "God's Plan"), olíuleiðsla til Alaska er vilji guðs (Alaskan Pipeline is "God's Will") svo dæmi séu nefnd. Ég verð nú að segja að ekkert er með þennan guð að gera ef hann er upptekinn af því að sjá til þess að fólk sé drepið og að einhverjar leiðslur komi einhvers staðar. Ekki skrýtið þó hann hafi ekki tíma til að sinna ómerkilegum þáttum eins og fólki sem þjáist vegna stríðsbrölts, fólki sem sveltur og fólki sem er heimilislaust svo eitthvað sé nefnt.
Annars er ég bara veik, kvefuð og með höfuðverk, dettur ekki í hug að kenna guði um það, verð ábyggilega góð á mánudag og kenni guði, nei þakka, heldur ekki um/fyrir það! Farið vel með ykkur í dag, ég neyðist til þess, verð líklega bara hérna heima, ætlaði sko út á Grenivík, en það verður að bíða
Áfram Utd!
Bloggar | Breytt 14.9.2008 kl. 01:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.9.2008 | 19:16
Er ég nokkuð að verða veik?
Mikið obboðslega finnst mér gott að komast í frí. Ég er búin að hanga í vinnunni á hálfum tanki og varla það þennan daginn. Vaknaði með hausverk dauðans en fór samt í vinnu, hvað annað. Var sannfærð um að þetta væri ekkert sem ein eða tvær íbúfen gæti ekki lagað, en helvískur magnaðist bara. Ég hékk og lauk kennslu, veit reyndar ekkert hvort nokkuð af viti kom frá mér, en fór heim að ganga þrjú. Lagði mig og sofnaði smá og viti menn, vaknaði eins og nýsleginn túskildingur. Þá tók við undirbúningur fyrir mánudag, átti hann allan eftir, eðlilega þar sem ekkert slíkt gerist í svefni, bara að svo væri.
Tók mér pásu, skrapp út og smellti einni mynd af rósinni minni sem er núna í óða önn við að springa út, ætlar held ég að hafa það þar sem hlýtt er í veðri, þarf að haldast þannig í nokkra daga enn, þá get ég klippt hana og sett í vasa hér inni. Set hér mynd af til að skreyta aðeins síðuna. Vona svo að helgin fari vel með ykkur elskurnar mínar!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.9.2008 | 21:20
Tungan okkar!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.9.2008 | 18:57
Að klukka eða ekki klukka?
Vinkona mín hún Ninna klukkaði mig. Þegar ég var lítil þurfti maður að hlaupa og hlaupa á eftir hinum krökkunum og reyna að ná þeim og klukka. Þar sem ég er ekki hlaupalega vaxin var ég sem sagt oft á hlaupum eftir öðrum krökkum og óttaðist að núna þyrfti ég að rifja upp hlaupakunnáttuna eftir nokkurra áratuga hlé. Sem betur fer er nú ekki svo, heldur þarf ég að svar nokkrum laufléttum spurningum og klukka svo einhverja fjóra. Það gæti reyndar orðið erfitt þar sem ég á svo fáa bloggvini. En ekki til setunnar boðið eða á ég að segja að nú sé til setunnar boðið þar sem ég sit við tölvuna? Hefst þá lesturinn:
4 störf sem ég hef unnið um ævina:
Kaldbakur hf.
Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (nokkrir mismunandi vinnustaðir innan þess vinnustaðar)
Grenivíkurskóli
Síðuskóli
4 bíómyndir sem ég held uppá:
Æi, nú vandast málið. Ég man yfirleitt ekki nöfn á bíómyndum og það sem verra er að ég get horft aftur og aftur á sömu myndina og man ekki að ég er búin að sjá hana. Því held ég að ég verði að segja pass
4 sjónvarpsþættir sem mér líkar:
Pass
4 staðir sem ég hef búið á:
Grenivík
Akureyri
Kópavogur
Reykjavík
4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Mallorca
Noregur
Danmörk
England
4 bækur sem ég hef lesið oft:
Les sjaldan sömu bókina aftur og aldrei ótilneydd en...
Sjálfstætt fólk (kannske ekki oft en alla vega tvisvar, var í skóla)
Salka Valka (heldur ekki oft en alla vega einu og hálfu sinni, var líka í skóla)
Gísla saga Súrssonar (Hef bara stundum þurft vegna vinnunnar)
Hrafnkels saga Freysgoða (Vinna líka hérna)
4 síður sem ég heimsæki daglega, fyrir utan bloggsíður: Þetta er nú lítið mál, ég heimsæki daglega margar margar síður.
http://www.namsgagnastofnun.is/
http://www.visindavefur.hi.is/
4 uppáhaldsréttirnir mínir:
Soðin ýsa með nýuppteknum rauðum íslenskum
Lambalæri að hætti mömmu
Hjörtu og lifur að hætti mömmu
Gúllassúpa að eigin hætti
Skrýtið að ég skuli ekki horfalla þar sem mamma er löngu hætt að elda
4 staðir sem ég vildi vera á núna:
Á Laugardalsvelli
og svo er ég á hinum staðnum eða heima hjá mér
4 bloggarar sem ég klukka núna:
Og nú vandast málið. Hverja á ég að klukka?
Hóffa mín, þú færð þann heiður að vera klukkuð fyrst hér, hef held ég aldrei áður getað klukkað þig
Sólveig Kristín frænka mín, held að hún bloggi stundum, á alla vega síðu.
Steinunn Helga frænka mín
Sebastína og Gabríela, eru reyndar hundar en það er bara talað um bloggara ekki bloggaramenn eða konur svo ég hlýt að mega klukka bloggarahunda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)