20.7.2008 | 13:11
Sól, sól skín á mig!
Rólegheit í kringum okkur síðustu daga. Mest höfum við setið úti á fallega pallinum okkar og sleikt sólina loksins þegar hún áttaði sig á að það er sumar á skerinu og hún á ekkert með að vera í vetrarfríi.
Ágætisveður eins og ég sagði og yndislegt hér suðvestan hússins. Við fengum góða gesti í gær. Fyrst kom Heimir og svo Doddi og Tanya. Bubbi fór með vinnufélögum í Vaglaskóg til að grilla og djamma, en við Valur grilluðum okkur hér heima. Snæddum út á palli í kvöldsólinni og eftir frágang renndum við til tengdamömmu. Þá var ferðinni heitið inn á Þverá í golf. Við spiluðum einn hring en hann tók okkur tvo tíma þar sem við vorum þrjú að spila. Tókum okkur góðan tíma og gekk bara þokkalega. Besti árangur okkar beggja þetta sumarið, þarf reyndar ekki að vera góður til að hljóta þann sess. Eftir golf komu skötuhjúin heim með okkur fengu sér kaffisopa. Bræðurnir fóru í pottinn en konurnar sátu undir hitaranum og spjölluðu, svona eins og enskukunnáttan leyfði. Tanya er forvitin um líf Íslendinga áður fyrr og veltir ýmsu fyrir sér, meðal annars hvernig fólk komst af hér í þessu landi þar sem kuldi og vindur leikur um flestar árstíðir og lítill skógur og engin kol í jörðu. Bubbi minn kom heim um eittleytið, búinn að fá nóg af djammi enda tekið á því nóttina á undan líka. Gestirnir fóru að ganga tvö í nótt, þá duðruðumst við hjónaleysin fram yfir þrjú en fórum þá að sofa. Sváfum eins og englar til ellefu í morgun. Fullmikill svefn að mínu mati og illa farið með daginn, en það þýðir ekkert að tala um það, verður ekki bakkað. Stefnan er sett á golf í dag, annað hvort út á Grenó eða jafnvel í Mývatnssveit, veðrið er svo gott, um að gera að nýta það, ekki víst það haldi.
Fleiri myndir hér sem Tanya tók, takk fyrir að deila þeim með okkur Tanya!
Farin út í sólina með Heimsljós, hafið það gott í dag!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 21.7.2008 kl. 00:31 | Facebook
Athugasemdir
Svona á að gera þetta
Jónína Dúadóttir, 20.7.2008 kl. 15:02
Kann að njóta lífsins lystisemda. Frábært að vera í fríi, hef sagt það áður að í því er ég mjög flink, líklega með háskólapróf í slíku
Sigríður Jóhannsdóttir, 20.7.2008 kl. 18:59
Frábært hjá þér, er þetta langt nám ?
Jónína Dúadóttir, 20.7.2008 kl. 20:17
Góður dagur hjá ykkur enda veðrið að leika við hvern sinn fingur. Ekki sá ég þig þó á víkinni í dag, býst við að það hafi ekki verið eins hvasst í Mývatnssveit til golfiðkunar.
Þess vegna stefni ég á að kíkja á þig, pallinn og sjálfala gróðurinn á föstudaginn og vona að ég fái kaffi eða te sem væri þá gráupplagt að sitja við úti á pallinum fína
Kveðja og góða ferð í borgina. HH
Hóffa (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 23:35
Ninna mín, námið er afar stutt, alla vega fyrir letihauga eins og mig. Gæti trúað að það tæki þig aðeins lengri tíma,
Hóffa mín, ég hlakka strax til föstudagsins!
Sigríður Jóhannsdóttir, 21.7.2008 kl. 00:19
Og ég fór út á víkina í dag, fór reyndar ekki í golf, Valur fór einn á æfingasvæðið, en ég þarf ekkert að æfa mig svo ég sat bara í kaffi og með´ðí hjá Oddu systur. Fór ekkert á göngu og stoppaði stutt svo líklega hafa fáir séð mig
Sigríður Jóhannsdóttir, 21.7.2008 kl. 00:22
Góðan daginn mín kæra, fallegar myndirÉg vissi sem var að ég mundi allt í einu kunna að vera í fríi, akkúrat núna þegar það er búið.....
Jónína Dúadóttir, 21.7.2008 kl. 07:51
Já, svona erum við Ninna mín, alltaf svolítið öfugar
Sigríður Jóhannsdóttir, 21.7.2008 kl. 10:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.