23.6.2008 | 09:14
Sunnudagur til sigurs!
Kominn mánudagur og seinni sumarfrísvika Vals hafin. Hún verður eins og sú fyrri notuð í að vinna hér úti
Á laugardagskvöldið fór ég í afmælisveislu til Tobbu, þetta var með skemmtilegri veislum sem ég hef setið. Mikið sungið og spjallað. Kom ég ekki heim fyrr en að ganga fjögur um nóttina. Samt vaknaði ég fyrir níu í gær og um hádegisbilið komu Doddi bróðir Vals og kona hans hin rússneska Tanya. Við höfðum lofað af fara með þau í Mývatnssveitina og svo konan gæti séð eitthvað merkilegt í okkar fallega landi. Við fórum á þessa hefðbundnu túristastaði við Mývatn. Byrjuðum á að stoppa við Höfða og fórum svo í Dimmuborgir. Þar gengum við aðeins um, skoðuðum meðal annars Kirkjuna. Tanya myndaði og myndaði allt sem fyrir augu bar, en við vorum eins og asnar, gleymdum myndavélinni heima. Eftir Dimmuborgirnar fengum við okkur ofurlitla hressingu í Reykjahlíð og lá leiðin þaðan í Jarðböðin. Ég hef einu sinni farið í þetta lón og þótti það ákaflega ómerkileg reynsla. Sama var upp á teningnum núna, ég held ég muni aldrei fara aftur og verðið í lónið, litlar 1400 krónur á manninn fyrir að fá að sulla í ógeðslegu vatni. Eftir baðið keyrðum við í Námaskarð. Þá fyrst lifnaði yfir þeirri rússnesku, þetta er Ísland sagði hún. Ég hins vegar velti því fyrir mér hver hafi tekið það að sér að fræða útlendinga á því að Ísland sé lítið annað en hverir? Er Ísland kynnt þannig í útlöndum? Eftir Námaskarð var rennt heim á leið. Þangað vorum við komin um hálfsjö í gærkveldi. Ég náði fréttum áður en ég sofnaði, svaf í sófanum til ellefu og í rúminu til sjö í morgun. Missti þarf af leiðandi af því þegar Ítalir fengu reisupassann.
Veðrið er yndislegt, ég ætla að skella mér út og njóta þess. Farið nú vel með ykkur!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 26.6.2008 kl. 12:18 | Facebook
Athugasemdir
Sæl og blessuð Sigga :)
Ég held ég sé alveg sammála með blessuðu túristana! og jú ekki má gleyma blessuðu laugunum!! Bláa lónið er vel sótt af útlendingunum og er alveg ótrúlegt fyrirbæri reyndar EN ekki mikið notað af þeim sem búa næst!!! reyndar kostar heilar 2300 kr að stinga tánni í lónið!! svo það er kannski ekki nema von að fólk fari þarna bara 1 x á ári!
en ég dauðöfunda þig af blessuðum pottinum :) væri sko alveg til í að hafa einn slíkan í bakgarðinum heima :) en það er á stefnuskránni, hvenær sem það svo verður !
kv Hadda G
Hadda G (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 09:35
Sæl Hadda mín!
2300 kr. vá! Og mér sem fannst 1400 kallinn alveg nóg Ekki skrýtið þó lónið sé ekki valið sem fjölskylduafþreying, þetta er nú meira bullið og svo eru menn líka undrandi á því að ferðamönnum þyki dýrt hérna.
Ég verð líka að viðurkenna að ég hlakka til þegar potturinn kemst í gagnið þó svo hann hafi ekki verið á mínum óskalista, en ég bý ekki ein hérna og blessaður maðurinn verður líka stundum að fá að halda að hann ráði einhverju.
Skilaðu góðri kveðju til fjölskyldunnar!
Sigríður Jóhannsdóttir, 23.6.2008 kl. 09:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.