11.10.2008 | 22:17
Vináttan!
Gulli og perlum að safna sér,
sumir endalaust reyna,
vita ekki að vináttan er,
verðmætust eðalsteina.
Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina.
En viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
(Höf: Hjálmar Freysteinsson, læknir á Akureyri.)
Svo satt og rétt og góð áminning á þessum tímum. Vinátta er eiginlega það eina sem ég get boðið fólki í kringum mig, safna hvorki gulli né perlum
Bloggar | Breytt 12.10.2008 kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.10.2008 | 16:00
Samsæriskenningar;)
Ég hef ótrúlega lítið vit á efnahagsmálum en þau eru efst á baugi þessa dagana. Verð þó að segja að mér þykir nóg um hvað margir stökkva fram á ritvöllinn og höggva mann og annan í hvert sinn sem eitthvað nýtt gerist í þessum efnum. Ég veit að við erum af kyni víkinga en fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Langflestir landsmenn virðast vera sérfræðingar í efnahags- og bankamálum og því er ég alveg standandi bit á hvernig komið er fyrir okkur. Er það kannske vegna þess að allir eru alltaf ósammála um allt? Allir þessir sérfræðingar rugla bjána eins og mig í ríminu, og veit ég ekki í hvorn fótinn ég á að stíga þegar ég fletti bloggsíðunum, veit ekki hverjir hafa rétt fyrir sér og hverjir ekki. Ætti því ekkert að vera að lesa.
Þrátt fyrir að vera efnahagsmálabjáni (eða kannske vegna þess) hafa margar spurningar vaknað hjá mér og kann ég náttúrulega engin svör við þeim. Ég er nú svo vitlaus að ég veit ekki af hverju ekki má þiggja lán frá Rússum. Einhverjir segja að þeir vilji lána okkur til að eiga inni greiða. Þeir vilja flugvöll las ég einhvers staðar. Er það þá eitthvað verra en að hafa verið með Bandaríkjamenn hér í áratugi? Enginn vildi þá, en allt varð vitlaust þegar þeir fóru og þjóðin sat hnípin eftir og þóttist hafa verið stungin í bakið, svikin af vinum sínum. Enn eru Natóvinir okkar að stinga okkur í bakið, einn af öðrum. Einhver sagði mér að Rússar vildu komast í kannskeolíuna okkar. Eru þeir eitthvað verri í að vinna olíu en hver annar? Fyrir utan að þessi olía er bara kannskeolía, ekki fundin enn. Öryggisráðið sagði einhver, en erum við komin þangað inn? Þykir fólki líklegt að við munum gera það eftir að vinir okkar settu á okkur hryðjuverkalög og sögðu okkur gjaldþrota? Af hverju er Alþjóðagjaldeyrissjóðnum svona mikið í mun að lána með Rússum? Eru Norðmenn að bjóða hjálp af því þeir eru vinir okkar eða býr kannske eitthvað að baki vinaþeli þeirra eins og menn telja að sé með Rússana? Hafa sem sagt allir óhreint mjöl í pokahorninu? Er þetta eitt allsherjar samsæri?
Valur seldi mótorhjólið sitt í vikunni og hefur ekki enn fundið sér annað. Af því að hjarta okkar slær með þjóðinni fórum við og lögðum inn á sama tíma og aðrir tóku út. Er að velta því fyrir mér hvort við hefðum átt að kaupa dósamat fyrir peninginn?
Hafið það gott um helgina og munið að lífið heldur áfram, verum bara þakklát fyrir að ekki er búið að leggja landbúnaðinn af og enn er hægt að veiða fisk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.10.2008 | 19:41
Þjóðarskútan á leið í strand, eða er hún kannske strönduð?
Ég hef bara setið hjá í æðinu sem gripið hefur landsmenn, enda á ég lítið annað en sjálfa mig og einhverjar skuldir í Íbúðalánasjóði. Ég nenni heldur ekki að fara út í Bónus með látum og kaupa mér hveiti, sem ég nota mjög lítið af, á 99 kr bara af því það mun kosta 129 kr á morgun, ég verð líklega aðeins fátækari fyrir vikið en það verður bara að hafa það, neyðin kennir þessari nöktu konu ekkert, heldur er letin ein við völd í hennar beinum. Ég nenni heldur ekkert að vera að rífa mig hér yfir ástandinu, hef auðvitað skoðun en ætla ekki eins og áður sagði að eyða kröftum eða hækka blóðþrýsting á því að láta hana í ljósi. Enda er alveg sama hvað landsmenn rembast eins og rjúpur við staurinn, það breytir voða litlu Fékk þetta sent í pósti í dag og læt það duga um þessi málefni. Einhver óþekktur hefur lamið þessu saman og gerir bara þokkalega held ég bara svo langt sem mitt vit nær í bragfræðum.
Þjóðnýting
Á lítilli eyju við heimsskautahjara
býr heimakær, vansvefta, auðtrúa þjóð.
Hún leit upp til ráðsmanna loðinna svara
sem loforðum öfugt í kok hennar tróð.
Þeir níddust á trausti og trúgirni okkar
táldrógu sannlega helvítis til.
Og allt sem þeir gerðu, þeir gordrullusokkar
gerðu þeir flottræflum sínum í vil.
En frelsið er háðara boðum og bönnum
en bláeygðir frjálshugar ímynda sér.
Þjóð mín var notuð af nýríkum mönnum
og nauðgað af útrásarvíkingaher.
(Höfundur ókunnur, allavega mér)
...og hana nú!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.10.2008 | 23:10
Laugardagur til lukku!
Góður dagur liðinn. Ég gerði mest lítið eins og mín er von og vísa á laugardegi. Fyllti reyndar á ísskápinn og las blöðin auk þess sem ég renndi í heimsókn til Ninnu minnar. Hana er svo sannarlega gott heim að sækja. Konan hafði átt afmæli daginn áður og ég var nú svo heppin að hafa komist að því áður en ég fór af stað og gat á hana blómum bætt. Hóffa vinkona okkar kom meðan ég stoppaði og áttum við saman ákaflega skemmtilega stund. Takk fyrir mig vinkonur þetta var gaman og við verðum nú bara að gera okkur einhvern hitting aftur
Eiginmaðurinn sprangar nú um húsið á sundskýlunni einni fata, er á leið í pottinn í kuldanum. Ég ætla að láta mig hafa það að elta hann. Farin í sturtuna og svo út í kuldann, mér er það til efs að þetta sé mjög hollt, eða hvað, fara Finnar ekki úr gufunni og út í snjóskafla svo......? Myndir úr kuldanum
Vonandi verður það sem eftir lifir kvölds ykkur dásamlegt og sofið vel og vært í nótt elskurnar mínar.
Bloggar | Breytt 5.10.2008 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.10.2008 | 23:22
Seðlabankinn var það heillin, eða var það ráðherrastóll!
Ég væri alveg til í að vera Seðlabankastjóri eða forsætisráðherra. Þau störf krefjast ekki nokkurra hæfileika, bara koma af og til fram í fjölmiðlum og segja frekar pirraður/uð: Hættið að tala, hættið að gagnrýna, ég svara þessu ekki, þetta lagast einhvern tímann! Þvílíkar mannvitsbrekkur! Svona er landinu og Seðlabanka Íslands stjórnað. Eina ráðið sem menn virðast hafa er að bíða og sjá til þar sem þetta mun lagast. Í góðærinu stundaði Davíð þessa taktík og þá dugði hún alveg vegna þess að af sjálfu sér gekk allt vel. Og þetta mun auðvitað lagast, en hvenær? Það má alveg eins hafa kerlingu eins og mig á kennaralaunum í Seðlabanka eða ráðherrastóli eins og þessa menn sem þar eru ef þeir kunna ekki önnur ráð.
Fyrir utan þessa martröð varðandi Seðlabanka og ríkisstjórn líður mér vel. Ekkert er nú farið að bera á matarskorti á þessu heimili, allir feitir og pattaralegir ennþá. Við fitum kettina og erum að hugsa um að fá okkur kindur í skúrinn svo við drepumst nú ekki í voðanum sem framundan er.
Hafið það svo sem allra best um helgina og munið að borða vel bæði feitt ket og feitan fisk, aldrei að vita hvað fæst í Bónus á morgun. Yfir og út í bili!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.10.2008 | 21:40
Sláturtíð!
Það hefur heldur betur kólnað í vikunni. Slyddar aðeins meira að segja og þar sem ekki er enn kominn nagladekkjatíð er ástandið stundum varasamt á morgnana og ekki segja mér að ég eigi ekki að nota nagla á vetrum því það þýðir ekkert. Ég vil ekki sjá annað eftir að hafa einu sinni keypt rándýr harðkúlueitthvaðdrasl undir bílinn. Drossían var eins og ofvaxin skautadrottning á götum bæjarins. Lét mig samt hafa það að dansa listdans einn vetur en keypti nagladekk haustið eftir og með það sama gufaði skautadrottningin upp.
Vikan liðið eins og aðrar vikur, vinna, át og svefn. Nóg að gera, unnið frameftir kvöldi flesta daga. Eins og fyrri daginn þá flýgur líka tíminn og þegar farið er að hvítna í kring þá óneitanlega fer maður að hugsa til besta tíma ársins, jólanna (of snemmt segja líklega einhverjir). Yndislegur tími og ótrúlega stutt í hann. Ég hlakka til
Vonandi hefur dagurinn verið ykkur öllum ánægjulegur, þrátt fyrir að krónan falli sem aldrei fyrr. Reynum að líta björtum augum fram á veginn, barlómur er ekki til neins, tími hinnar hagsýnu húsmóður líklega að renna upp á ný með sláturgerð, steiktum hjörtum og lifur. Yfir og út í bili!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.9.2008 | 11:29
Tilbreytingarleysi?
Svei mér ef ég held ég geti ekki drepist í tilbreytingarleysi. Alltaf sömu andlitin fyrir framan mig, tveir kettir og ágætur maður, get ekki sagt að ég sjái þennan í kjallaranum svo oft, þegar ég sé hann er það tilbreyting. Líður reyndar ágætlega í þessu ástandi, að minnsta kosti svo ágætlega að ég nenni ekki að gera neitt til að breyta því. Fer mesta lagi út á smá göngu eða út í einhverja búð til að kaupa eitthvað að eta, kreppan setur hömlur á verslunarvalið, ekkert Glerártorg eða Hagkaup eða Blómaval eða Byko eða nokkuð annað en Bónus. Það er meira að segja svo stutt í Bónus að það að fara þangað telst ekki til tilbreytinga. Ég vakti reyndar frameftir í gær, sem er tilbreyting þegar kemur að mér, var samt ekki á dansiballi eins og ein góð vinkona mín, var bara heima og horfði á sjónvarp sem er líka tilbreyting hjá mér þar sem ég sef oftast yfir því. Komst reyndar að því að stöðvarnar bjóða ekki upp á neitt skemmtilegt á laugardagskvöldum eða sunnudagsnóttum, King Kong og eitthvað þaðan af verra. Horfði samt, held ég verði að fara að púsla eins og sumir. En hvað er ég að kvarta, ég á yndislegan mann og son og tvo ketti, fyrir utan það að eiga ofan í mig og á. Hversdagurinn getur bara stundum verið tilbreytingarlaus, er það ekki?
Hafið það gott í dag elskurnar mínar og farið varlega í umferðinni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
26.9.2008 | 19:15
Og þannig er það!
Nenni ekki að skrifa neitt um lífið og tilveruna hér hjá okkur, set bara þennan brandara inn sem Svava frænka mín sendi mér rétt í þessu.
Á salernisaðstöðu á fínum veitingastað standa viðskiptafræðingur, lögfræðingur og bóndi hlið við hlið og nota pissuskálarnar.
Viðskiptafræðingurinn lýkur sér af, rennir upp buxnaklaufinni og tekur til við að þvo sér um hendurnar, eða bókstaflega skrúbba þær, alveg upp að olnbogum. Notaði hann síðan um það bil 20 bréf til að þurrka sér. Hann snýr sér að hinum og segir: Ég gekk í Harvard, þar kenndu þeir okkur að vera hreinlegir.
Lögfræðingurinn kláraði og bleytti fingurgómana, greip eitt bréf og sagði: Ég lærði í Princeton, þar kenndu þeir okkur að vera umhverfisvænir.
Bóndinn renndi upp og á leiðinni út segir hann: Ég lærði á Hvanneyri, þar var okkur kennt að míga ekki á hendurnar á okkur.
Og munið svo að míga ekki utan í neinn. Góða helgi elskurnar mínar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.9.2008 | 19:04
Afmæli!
Ægir Oddgeirs, bróðursonur minn á afmæli í dag. Þessi elska er orðinn 37 ára. Til hamingju með daginn frændi minn elskulegur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.9.2008 | 17:44
Þreytt!
Nú væri ég til í að vera orðin 67 ára. Bara svona deila því með ykkur
Vonandi hefur dagurinn verið ykkur innihaldsríkur! Er farin að horfa á sápu í sjónvarpinu, ætla sko ekki að vinna meira í dag og hana nú!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)